Samtalsmeðferð

Þegar talað er um samtalsmeðferð (psychotherapy) er verið að vísa í það megineinkenni og þá sérstöðu sem sálfræðimeðferð hefur. Hún hverfist um samtal tveggja eða fleiri, sálfræðings og skjólstæðings. Hún felur ekki í sér notkun aðferða hafa áhrif á líðan með t.d. lyfjum, hreyfingu, næringu, skurðaðgerðum eða ámóta áþreifanlegum leiðum.

Með samtalinu er hreyft við öllu því sem hefur áhrif á líðan okkar s.s. skilning, viðhorf, hugsunarhátt, tilfinningar, hegðun og  lífstíl. Inntak og áherslur í samtalsmeðferð geta verið margar. Sumar samtalsmeðferðir fást fyrst og fremst við hugsanir okkar, aðrar við hvað það er sem breytir hegðun okkar, enn aðrar við tilfinningar okkar og  meðvitund og ekki má gleyma þeim sem leggja mikið upp úr því sem kann að vera bæði liðið og falið skilningi okkar. Þessi afbrigði samtalsmeðferðar eiga það hins vegar sameiginlegt að samtalið er lykillinn að því að færa líðanina til betri vegar.

Allir sálfræðingar eru þjálfaðir í samtalsmeðferð. Þeir tileinka sér jafnóðum það sem best reynist en laga það síðan að sínum eigin stíl og þeim áherslum sem þeim hafa reynst best. Þau hugtök sem ég tel að lýsi best þeim áherslum sem ég hef í minni samtalsmeðferð eru skilningur, umburðarlyndi og sátt.