Kvíði

Allir hafa fundið fyrir kvíða s.s. þegar við stöndum frammi fyrir krefjandi verkefni. Hóflegur kvíði hjálpar okkur við að halda einbeitingu og vera vel vakandi gagnvart því sem reynir á okkur. Þegar hins vegar kvíðinn og áhyggjurnar minnka ekki gætum við verið að glíma við kvíðavandamál.

Þegar kvíðinn er orðinn tíður og mikill fer hann að hafa áhrif á daglegt líf okkar og gera það erfitt. Algeng einkenni kvíða eru yfirþyrmandi ótti, andþyngsli, ör hjartsláttur, svefntruflanir, ógleði, skjálfti og svimi. Kvíði getur líka tekið á sig nokkrar myndir og helstu afbrigði eru: almennur kvíði sem getur beinst að mörgu og einkennist einna helst af miklum áhyggjum; kvíðakast sem eru sterk kvíðaeinkenni sem viðkomandi upplifir sem mjög ógnandi og óttast að komi aftur; kvíði sem beinist að einhverjum ákveðnum hlut og kallast fælni; kvíði sem birtist í því að geta ekki hætt að hugsa um eitthvað óþægilegt s.k. þráhyggja eða þurfa að gera sama hlutinn oftar en vilji stendur til s.k. árátta; og loks kvíði sem kemur í kjölfar mikils áfalls s.k. áfallastreituröskun.