Slökun – leið að betri árangri

Lykillinn að góðu gengi í flestum viðfangsefnum lífsins er að líða vel, finna til yfirvegunar, einbeitingar og sjálfsöryggis. Mörgum hefur hins vegar reynst erfitt að ná þessari góðu líðan.

Hér er kynnt til sögunnar slökun sem gerir fólki kleift að breyta líðan sinni til betri vegar og auðvelda framfarir í þeim verkefnum sem framundan eru. Þessi þjálfun byggist á aðferðum sem hafa margsannað gildi sitt. Með áhuga og ástundun mun slökunin hjálpa þér.

Hvað er á disknum? 

  • Vöðvaslökun      1
  • Vöðvaslökun      2
  • Hugarslökun      1
  • Hugarslökun      2

Hver þjálfunarþáttur byggir á þeim sem á undan koma. Það er því mikilvægt að ná góðum tökum á hverjum og einum þætti áður en lengra er haldið. Ein til tvær vikur fyrir hvern þátt hefur reynst vel.

Hver þáttur tekur að meðaltali 10 – 15 mínútur. Finndu þér ákveðinn tíma dags sem hentar til hlustunar. Það skiptir ekki máli hvaða tíma þú velur en því meira sem þú kemur þér upp föstum vana því betra. Mikilvægt er að hafa gott næði. Því oftar sem þú hlustar því betri slökun munt þú ná.

Ef þú ákveður að hlusta rétt fyrir svefninn er rétt að geta þess að hverjum þjálfunarþætti lýkur með fyrirmælum um að þú sért vel vakandi. Þú getur einsett þér að líta framhjá þessum fyrirmælum en finna þig í staðinn líða inn í þægilegan og nærandi svefn.

Vöðvaslökun 1

Þessi þáttur er nr. 1. á disknum. Hann tekur u.þ.b. 20 mínútur og er sá lengsti í allri þjálfuninni. Vöðvaslökun er mjög áhrifarík aðferð til þess að ná fram slökun. Hún byggist á því að spenna vöðvana og halda spennunni stutta stund og sleppa henni síðan. Þá gerist það af sjálfu sér að slökun fylgir í kjölfarið. Í þessum þætti er farið kerfisbundið yfir allan líkamann. Það lærist að slaka á öllum vöðvum og þekkja spennustig líkamans. Hóflega slökum vöðvum fylgir góð andleg líðan eins og yfirvegun og öryggi.

Allir þættirnir byrja síðan eins, á því að kreppa vinstri hnefann, draga djúpt að sér andann og slaka síðan á hnefanum og anda frá sér. Með því að byrja alla slökun með þessum hætti verður krepptur vinstri hnefi að s.k. kveikju fyrir góða slökun, hún leysist úr læðingi. Að anda frá sér verður kveikja fyrir það að slökunin verður stöðugt dýpri og dýpri.

Vöðvaslökun 2

Þessi þáttur er nr. 2. á diskinum. Í þessum þætti er farið hraðar yfir sögu og slökunin tekur aðeins um 10 mínútur. Hér er slökunin kölluð fram án þess að vöðvarnir séu spenntir fyrst. Athyglin beinist að því að dýpka slökunina og taka eftir þeirri þægilegu líðan sem fylgir í kjölfarið.

Eitt af því sem gerist í kjölfar þessara tveggja fyrstu þátta er að ósjálfrátt spennustig líkamans lækkar. Þannig minnkar óþarfa orkueyðsla og þreyta. Þú getur flýtt fyrir þessu með því að gæta að spennustigi líkamans einu sinni til tvisvar á dag og ef það reynist of hátt að slaka á með þeim hætti sem hér hefur verið kennt.

Hugarslökun 1

Þessi þáttur er nr. 3. Hér er kveikjan nýtt til þess að kalla fram góða slökun. Henni fylgir yfirvegun og öryggi. Það er í góðri slökun sem hægt er að undirbúa betri árangur í þeim verkefnum sem þú ert að glíma við. Þetta felst ekki síst í því að geta séð fyrir sér með s.k. sjónmyndum góða líðan og góðan árangur. Jafnframt er í góðri slökun auðveldara að breyta viðhorfum sínum og líðan með s.k. sjálfstali eða sjálfsefjunum. Til þess að þessi vinna verði markviss fer hún fram í sérstökum ímynduðum kringumstæðum sem við köllum hugarherbergi. Hér er það kynnt til sögunnar, prýtt húsgögnum og við æfum það að komast þangað fljótt og auðveldlega.

Hugarslökun 2

Þessi þáttur er sá síðasti á disknum. Hugarherbergið var kynnt til sögunnar í síðasta þætti. Hér er það útbúið þeim tækjum sem til þarf svo það nýtist sem best. Þetta eru kvikmyndatjald (fyrir sjónmyndir), tafla (fyrir sjálfstal eða sjálfsefjanir) og orkuvél. Kvikmyndatjaldið getur þú notað til þess að sjá þig kljást  betur við þau verkefni sem þú velur og almennt líða betur. Taflan nýtist til þess að skrifa þær sefjanir sem þú vilt gefa þér. Orkuvélin eykur kraft og úthald. Fyrst í stað er lagt til að þú reynir að hafa áhrif á líðan þína að lokinni hlustun. Síðan getur þú tekið til við einstök verkefni.

Hvað svo?

Með þessum fjórum þáttum er grunnþjálfun lokið. Jákvæð áhrif verða greinileg, yfirvegun hefur aukist og þú gengur til starfa með aukinni einbeitingu og betra sjálfsöryggi. Þú hefur lært að ná góðri slökun og beiting sjónmynda og sjálfstals eiga að vera þér auðveldari. Ef þú hefur hug á frekari hugarþjálfun til þess að ná ákveðnum markmiðum hefur góður grunnur að sértækari þjálfun verið lagður.