Vinnustaðurinn

Hvað er trúnaðarsálfræði?

Margar stofnanir og fyrirtæki hafa trúnaðarlækni sem leggur mat flest af því sem snýr að líkamlegri heilsu starfsmanna. Hugmyndin með trúnaðarsálfræðing er af sama toga nema hvað viðfangsefnið er andleg líðan starfsmanna. Helstu þættir í þjónustu trúnaðarsálfræðings eru:

  • Ráðgjöf og stuðningur við  stjórnendur í þeim málefnum sem snerta vellíðan þeirra í þeim verkefnum  sem þeir glíma við.
  • Ráðgjöf og meðferð sem tengist andlegri velferð allra í fyrirtækinu eða stofnuninni  s.s. vegna dapurleika, kvíða eða efasemda um eigið ágæti.
  • Ráðgjöf og lausnir sem tengjast erfiðum samskiptum, erfiðum einstaklingum og margvíslegum ágreiningi eða einelti.
  • Ráðgjöf fyrir þá sem þurfa að glíma við áföll, skyndileg veikindi, heilsubrest eða mótlæti af öðrum toga
  • Fræðsla og námskeið um þau málefni sem máli skipta.

Hvers vegna þjónusta af þessu tagi?

  • Vond líðan á sér jafnan einhvern aðdraganda. Það er tilhneiging margra að gefa henni ekki þann gaum sem hún þarfnast. Áhrifin láta hins vegar ekki á sér standa. Starfsáhugi minnkar, veikindadögum fjölgar og líðanin fer að hafa áhrif á annað starfsfólk. Tilboð um þjónustu fagmanns á þessu sviði og viðhorf um að slíkt sé eðlilegt getur sparað t.d. fjarvistir og skilað þakklátari og vinnufúsari starfsmanni.
  • Um það er ekki deilt að einstaklingur sem er andlega heilbrigður, er sáttur við sjálfan sig, höndlar streitu og álag og er í góðu tilfinningalegu jafnvægi er verðmætur starfsmaður. Það er nánast línulegt samband milli ýmissa mælikvarða s.s. afkasta og frumkvæðis og góðrar stöðu á andlegum þáttum. Að geta í trúnaði viðrað líðan sína við fagmann getur skipt sköpum í að viðhalda góðri líðan og halda hæfni til að ráða við erfið verkefni. 
  • Oft fer mikill tími stjórnenda í að setja niður deilur, koma á sáttum eða finna lausnir vegna erfiðra samskipta. Á mörgu er aldrei tekið og afleiðingar eru gjarnan þær að hæft starfsfólk hverfur á braut eða að óánægja kraumar áfram og hefur slæm áhrif á starfsemi og starfsanda.  Það skiptir máli að greina vandann og finna viðeigandi lausnir. Reynslan hefur sýnt að samskiptavandi á sér gjarnan tilfinningalegar rætur og sálfræðilegt samhengi sem kallar á sálfræðilegar lausnir.
  • Fáir komast klakklaust í gegnum lífið og flestir verða fyrir einhverjum áföllum. Viðhorf og afstaða skipta sköpum um hvernig okkur ferst undir slíkum kringumstæðum. Margir ná sér sjálfir en fyrir aðra getur réttur stuðningur ásamt skilningi á því hvað viðkomandi er að ganga í gegnum skipt öllu máli. Enn og aftur snýst málið um að stuðla að góðri starfshæfni, jákvæðari starfsanda og betri ímynd fyrirtækisins.
  • Vel upplýstur starfsmaður er betri starfsmaður. Efni eins og streita, sjálfstraust, samskipti, ágreiningur, þunglyndi, kvíði og sátt eru bara nokkrir möguleikar. Fræðsla og námskeið hefur sýnt sig í að skapa frjóar lausnir og efla góðan starfsanda.