Um sálarmein

Þau skipta hundruðum sálarmeinin sem hrjáð geta manninn. Til eru ítarleg greiningakerfi (ICD/DSM) sem flokka, skilgreina og tengja þessi frávik í líðan og kalla þau raskanir. Þótt þessi greiningarkerfi taki einhverjum breytingum frá einni útgáfu til annarrar liggja meginlínurnar nokkuð ljósar fyrir.

Enginn er þess umkominn að kunna á öllum þessum röskunum skil eða geta veitt við þeim skilvirka þjónustu. Breiddin er það mikil að það sem á best við um eitt mein kann að henta illa fyrir annað.

Hér að neðan er gerð örstutt grein fyrir nokkrum þeim meinum sem sálfræðingar sinna og rannsóknir sýna að meðferð kemur að góðu gagni. Þá eru einungis tínd til þau vandamál sem ég tel mig hafa þjálfun og reynslu til þess að sinna. Þá fellur heldur ekki allt sem ég tilgreini undir greiningarkerfi en hefur engu að síður skapað bæði vanda og vanlíðan og nálgun sálfræðinnar og sálfræðinga komið að miklu gagni. Dæmi um þetta er lítið sjálfstraust eða samskiptavandi.